Margir kjósa að halda sig frá mannmörgum stöðum eins og líkamsræktarstöðvum á meðan Corona vírusinn gengur yfir landið. Á meðan sífellt fleiri eru í þeirri stöðu, skortir oft hugmyndir að skemmtilegri hreyfingu sem hægt er að stunda utan veggja stöðvanna. Ef einhverntíman er þörf á því að stunda reglubundna hreyfingu þá er það núna og því held ég úti hópi á Facebook sem er ætlaður til þess að gefa hugmyndir, ráðleggingar og hvatningu til þess að viðhalda reglulegri hreyfingu á meðan þessu ástandi stendur.
Einnig hef ég útbúið leik sem getur verið skemmtileg tilbreyting við aðra hreyfingu og fyrir þá sem eru fastir heima, í einangrun eða sóttkví er leikurinn þannig settur upp að það eina sem þarf til að spila hann er spilastokkur.
Hér má nálgast leikinn og að sjálfsögðu má breyta honum eftir eigin geðþótta eða stemningunni hverju sinni. Leikurinn gengur út á að fjölskyldumeðlimir draga spil og gera ákveðnar æfingar eftir því hvaða tegund (hjarta, spaði, tígull, lauf) kemur upp.
Hjarta þýðir burpees, spaði armbeygjur, tígull hnébeygjur og lauf liggjandi kviðkreppur. Fjöldi endurtekninga fer eftir því hvaða spil er dregið. Ég hvet fólk til að skipta út æfingum eða fjölda endurtekninga ef það vill og hér eru nokkra hugmyndir að öðrum æfingum:
• Plankastaða
• Bakfettur þar sem þú liggur á kviðnum
• Framstig
• Æfingar með teygjum
• Æfingar með æfingarbolta og lóðum
• Dans
• Stuttir sprettir
Aðalatriðið er að leikurinn sé skemmtilegur en jafn framt smá krefjandi fyrir þá sem spila hann. Ég hvet alla til að nota hugmyndaflugið og sameina skemmtilega kvöldstund með fjölskyldunni og góða hreyfingu með þessum einfalda leik.