Skip to content Skip to sidebar Skip to footer

Sumarið ekki verri tími til að stunda líkamsrækt en hver annar

Þegar heimurinn hálf lamaðist, þá mjakaðist hreyfing margra nokkuð hratt út af borðinu og jogging-gallinn varð á örfáum dögum besti vinur mannsins.
Í einhverjum tilvikum varð hreyfing þó reglulegur partur af innilífinu, allavega í einhverri mynd. Fólk lagði það á sig að standa í röð fyrir utan verslanir til að ná sér í æfingagræjur. Ketilbjöllu, dýnu og þetta helsta til að gera eitthvað, já bara eitthvað smáveigis, vitandi hve hratt og örugglega líkamsástandið dalar. Svo eru þeir snillingar sem gera æfingar með eigin líkamsþyngd.
Maður skyldi taka hatt sinn ofan fyrir þeim sem náðu að halda sér við efnið því það var hægara sagt en gert í þessum (furðulegu) aðstæðum sem við stóðum frammi fyrir og þurfti mikinn sjálfsaga til. Á þeim bæjum urðu ketilbjöllur og lóð ekki að stofustássi. En svo lengi sem fólk er að hlúa að sér og sinna þessum eina líkama sem okkur var úthlutað, þá skiptir ekki máli hvernig eða hvar það er gert. Eitt af því jákvæða við Covid er að margir áttuðu sig á að það þarf ekkert endilega fara langt til að sinna líkamanum.

Hinn stórhættulegi jogging-galli
Fæstir eru sáttir við „Covid-kílóin“ og vilja, eftir óeðlilega mikla setu og hreyfingaleysi komast í fyrra horf. Í venjulegu árferði minnkar aðsókn fólks í líkamsræktarstöðvarnar yfir sumartímann, en nú er þessu þveröfugt farið. Aðsóknin er góð, sem er frábært! Fólk þyrstir í að vinna upp vöðvatap og þol. Sjóðurinn sem átti að fara í utanlandsferð stendur óhreyfður og fólk hefur meiri tíma á milli innanlandsferða til að sinna líkamanum.
Einhver húmoristinn sagði í miðju fári að ef þú ætlaðir þér ekki að fitna eða missa niður fyrra líkamsástand, þá ættirðu forðast jogging-gallann eins og heitan eldinn. Þess í stað væri gagnlegt að vera heima við í sundfötum. Margt til í því!

En hvernig sem fólk fer að því að rækta líkama og sál, inni, úti, uppi á fjöllum eða inni á líkamsræktarstöð, með eigin líkamsþyngd eða lóðum, þá er eitt af markmiðunum. Að líða betur. Og þessa litlu setningu sem inniheldur aðeins þrjú orð eigum við skilið að þekkja og tengja við.
Að vera í sundfötum innan dyra er því algjör óþarfi, nema okkur finnist það skemmtilegt! Því það sem er skemmtilegt hefur þau frábæru áhrif að okkur líður og gengur betur!

Póstlisti

Please wait...

Takk fyrir skráninguna, heyrumst!

© Allur réttur áskilinn Líkami.is 2025.