Skip to content Skip to sidebar Skip to footer

Mikilvægt að fara varlega af stað eftir langt hlé

Viðtalið birtist á Mannlíf

Einkaþjálfarinn Björn Þór Sigurbjörnsson segir margt fólk bíða í ofvæni eftir að komast aftur inn í líkamsræktarstöðvar sem verða opnaðar á mánudaginn. Hann mælir með að fólk láti skynsemina ráða för.
Margt fólk mun taka gleði sína á ný á mánudaginn þegar líkamsræktarstöðvar landsins verða opnaðar aftur en þeim var lokað fyrir tveimur mánuðum af sóttvarnarástæðum. Einkaþjálfarinn Björn Þór Sigurbjörnsson minnir fólk á að fara rólega af stað í ræktinni hafi það tekið sér pásu frá hreyfingu í samkomubanninu.

„Fyrsta skrefið er bara að mæta og byrja rólega þar sem frá var horfið. Ég mæli með að gera t.d. færri endurtekningar og nota léttari lóð,“ segir Björn. Hann segir mikilvægt að hlusta á líkamann og fara ekki of geyst af stað, annars sé hætta á meiðslum.

Björn segir margt fólk bíða með eftirvæntingu eftir að komast aftur í ræktina. „Eftirvæntingin er mikil, sérstaklega hjá ræktarliðinu. Ég er engin undantekning þar,“ segir Björn. „Þess vegna vil ég vara fólk við að vera óþolinmótt og fara of geyst af stað. Auðvitað eru margir búnir að vera að hreyfa sig utandyra í samkomubanninu eða innanhúss með æfingateygjum og eigin líkamsþyngd, í alls konar aðstæðum sem það myndi vanalega ekki kjósa að æfa í og ég tek hatt minn ofan fyrir því fólki. Svo eru margir sem hafa ekkert náð að hreyfa sig síðan líkamsræktarstöðvum var lokað.Það er fólkið sem þarf sérstaklega að fara varlega af stað aftur,“ útskýrir Björn.

„Það er bara mikilvægt að ofkeyra sig ekki. Það er þannig sem fólk meiðir sig.“

Hann segir vöðvastyrkinn detta hratt niður þegar fólk tekur hlé frá æfingum en sé að sama skapi fljótur að koma til baka. „Það er bara mikilvægt að ofkeyra sig ekki. Það er þannig sem fólk meiðir sig. Ef átökin verða of mikil getur vöðvaniðurbrot sömuleiðis orðið of mikið og það getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér.“
„Allt eða ekkert“ viðhorfið stendur í vegi fyrir mörgum
Beðinn um góð ráð þá segir Björn að best sé að setja saman æfingaáætlun áður en farið sé af stað í ræktinni aftur. Þá sé nauðsynlegt að láta skynsemina ráða ferðinni. Svo er gott að setja sér einhver markmið sem hægt er að fókusa á.
Hann segir „allt eða ekkert“ viðhorfið ekki vera vænlegt til vinnings. „Ef við setjum okkur of háleit markmið þá verður farvegurinn stuttur og við gefumst upp. Þetta á bæði við um mataræði og æfingar. Það er alltaf skynsamlegra að gera litlar lífsstílsbreytingar í stað þess að fara í eitthvað stórkostlegt átak.“

Óraunhæft heilsuátak er ávísun á að fólk gefist upp að sögn Björns. „Ef fólk ætlar t.d. að taka mjög langar æfingar á hverjum degi eða breyta algjörlega um mataræði á einu bretti, ef það fer fram úr sér með einhverjum hætti, þá er líklegt að fólk gefist alveg upp. Þess vegna er mikilvægt að útbúa raunhæft plan og reyna að fylgja því eftir bestu getu. Ef maður missir svo af æfingu þá þýðir ekki að fara í sjálfsásökun, frekar að horfa fram á veginn og stefna að því að halda sig við áætlun sína.“
Hann bætir við: „Nú er bara að láta skynsemina ráða för og halda í gleðina. Þannig nær maður markmiðum sínum.“

Spurður út í hvernig hann sjái fyrstu dagana fyrir sér eftir að líkamsræktarstöðvar opna aftur eftir langt hlé á Björn erfitt með að spá fyrir um það. „Þetta verður bara að ráðast en ég skynja að fólk er spennt að snúa til baka í ræktina. Það verður forvitnilegt að sjá hvernig fer.“ Hann minnir á að áfram sér mikilvægt að gæta að smitvörnum. „Nú er nauðsynlegt að halda áfram að þvo sér reglulega um hendurnar og nota handspritt.“

Póstlisti

Please wait...

Takk fyrir skráninguna, heyrumst!

© Allur réttur áskilinn Líkami.is 2025.