Blóðsykursumræða

Nú eru liðnar 3 vikur síðan ég hóf að fylgjast með blóðsykrinum mínum með nema frá Veri. Þessi nemi gefur mér býsna góðar upplýsingar um þau áhrif sem maturinn sem ég borða hefur á kerfið mitt. Pælingar tengdar blóðsykri eru ekki nýjar af nálinni hjá mér þar sem ég hef átt blóðsykurmæli um nokkuð langt skeið og fylgst stöku sinnum með sveiflum út frá stökum máltíðum og fastandi blóðsykri. En myndbirting þess sem ég fæ með þessum sírita frá Veri hefur gefið mér nýja sýn á þessar pælingar og fengið mig til þess að kafa enn dýpra í hluti sem mér hafa fundist áhugaverðir í þessu samhengi, ég ætla hér í þessari bloggfærslu að gera upp síðastliðnar 3 vikur og fara yfir það sem mér sjálfum hefur fundist hvað áhugaverðast. 

Mitt hefðbundna mataræði hefur lengi verið listað upp af því að ég hef haft þann háttinn á að taka inn mat eftir að ég vakna með því að borða egg og ávöxt, áður en ég er mættur til vinnu kl 6 á morgnanna. Um miðmorgun hef ég haft þann háttinn á að koma inn ávexti og öðrum próteingjafa og borða allajafna máltíð í kringum hádegi sem er oftastnær kjúklingur en þó líka fiskur með grænmeti og kornmetis-kolvetnagjöfum eins og hrísgrjónum, kartöflum, byggi eða kúskús. um miðjan dag hef ég verið að borða próteingjafa eftir æfingar og svo kvöldmat sem myndi teljast mjög fjölbreyttur. Svona hefur mataræði mitt lengi litið út og byrjaði ég á því að skoða blóðsykur minn út frá því sem ég hef verið vanur að fylgja heilt yfir. Ég taldi mig búa yfir þokkalega góðri virkni insúlíns og tel að sá grunur minn hafi verið á rökum reistur miðað við þær tölur sem þessi síriti gaf mér. Ég hef mest tekið inn um 260 grömm af kolvetnum á einum degi og hæsta spike blóðsykurs fór í 7.5 mmol/L sem telst undir viðmiði (1). Kannski ástæða þess að ég get tekið inn allann þennan forða af sterkjuríkum kolvetnum sem sum hver hafa háan sykurstuðul (e.Glycemic index) er sú að ég bý svo vel að vinna á líkamsræktarastöð svo það er lítil afsökun fyrir mig að hafa ekki tíma til þess að taka æfingar, auk þess er ég aktívur einstaklingur og skrefafjöldi minn dagsdaglega er nokkuð hár. Ég hef undanfarin 20 ár æft stíft og mikið og bý þar af leiðandi af þessari gjöf sem góð virkni insúlíns er. 

Ég tók svo og tók nokkra daga á lágkolvetnauppsetningu þar sem fita var mun hærri á kostnað kolvetna en próteinmagn hélst nokkuð svipað, ég tók eftir því bersýnilega að blóðsykur var allajafna stöðugri, upprisa blóðsykurs eftir máltíðar reis hægar og allajafna minna sem kom mér ekkert á óvart þar sem ég var að útiloka kolvetni úr fæðunni sem skora hátt á Glycemic index/ load stuðlinum. Ég merkti ekki greinanlegan mun á orkustigi mínu þó ég væri að lækka kolvetnin, þar sem fita reis hærra upp þá var ég þessa daga ekki að innbirgða færri hitaeiningar en áður á lágkolvetna heldur öfugt, ég var örlítið hærri þar sem ég vildi sjálfur ekki fara niður í orkuinntöku hitaeininga á þessum stað. Eins og áður segir út frá hæfni minni til þess að vinna þokkalega útúr þessum kolvetnagjöfum þá er ekki þar með sagt að allir aðrir geri það, ég tek fram að hér er ég eingöngu að tala fyrir því hvernig þetta hafði áhrif á mig. 

Svo ég tók einn dag þar sem ég fór heldur betur út fyrir mín mörk og tók nammidag (skulum segja í þágu vísindanna!) Ég hesthúsaði poka af haribo hlaupi, góðum part af hjónbandssælu, fékk mér mjúkís með súkkulaðisósu og nóakroppi og fékk mér svo Chicago town pizzu. Blóðsykurinn reis upp eins og raketta og insúlínið fékk svo sannarlega að vinna yfirvinnu þennan daginn og ég verð að viðurkenna að orkustig mitt hefur verið betra, þar sem ég bæði upplifði aukna sykurþörf vegna áhrifa þess sem ég var að innbirgða. Áhrifin virka þannig að ég borða sykur í miklu magni í þessum matvælum og samhliða er ég ekki að fá próteingjafa né heppilega fitugjafa sem gætu dregið úr þessari hækkun og afleiðingin verður hratt dropp á blóðsykrinum þar sem stundum myndast svokallað sykurfall sem veldur því að hver einasta fruma líkama þíns öskrar á eitthvað sætt. Þar myndast sú staðreynd að áhrif þess sem við borðuðum síðast hefur áhrif á það sem þú ef til vill borðar í næstu máltíð. 

Ég gerðist einnig svo frægur að innbirða eplaedik til þess að mynda það hvort það hefði einhver áhrif á hægari losun sykurs út í blóðið eins og það er sagt að það geri, ég verð að viðurkenna í mínu tilfelli sýndi sú ágæta (en ekki bragðgóða)  vara ekki nein marktæk áhrif. Þó tek ég fram að ýmsar rannsóknir sýna að einstaklingar með minnkandi insúlínviðnám geta haft ágæti af þessu þar sem eplaedik er gerjuð afurð og gerjaðar afurðir eru góðar fyrir meltingu og þar af leiðandi getur eplaedik haft áhrif á hægara frásog fæðu út í blóðið hjá fólki þó ég hafi ekki séð þess merki hjá mér. Þó þetta ágæta eplaedik geti haft staðgóð áhrif í einhverjum tilfellum þá er það ekki fært um að laga orsök afleiðinga af minni virkni insúlíns. 

Að ofansögðu með tilliti til nammidagsins sem ég tók og almennt talið til hefðbundins vestræns mataræðis sem við almennt búum við, þar sem mikil unnin fæða er viðhöfð til að létta undir t.a.m. tímaskorti þá er framboð fæðu þannig uppsett að próteingjafar eru oftar en ekki nægilega háir hlutfallslega ef horft er til heildar orkuinntöku hitaeininga. Þetta hefur augljóslega áhrif á versnandi blóðsykurstjórn þjóðrinnar ef marka má fréttir og gögn þeim tengdum (2) 

Það er nefnilega þannig að próteingjafar sem innihalda gott magn lífsnauðsynlegra amminósýra (lesist: Próteingjafar úr dýraríkinu). Í þeim erum við oftast að fá samhliða góðar fitusýrur sem hjálpa til við blóðsykurstjórn. Unna fæðan í of miklu magni leiðir af sér versnandi blóðsykurstjórn. Ástæðan er sú að þegar insúlínið fær ekkert frí fer það í kulnun, ekki ósvipað því og ef við öskrum nógu mikið þá hættir umhverfið að hlusta, það gildir eins og um insúlínið, það einfaldlega hættir að svara og afleiðingin verður sú að forstigseinkenni sykursýki fara að gera við sig vart með tilheyrandi orkuleysi, versnandi svefngæðum og fleiri þáttum. Afleiðingar að þessum þáttum er minni vilji orka og stigmögnun til þess að gera það sem heppilegt er fyrir okkur að gera sem er að stunda reglubundna hreyfingu og viðhalda henni svo eitthvað sé tiltekið.     

Fleiri þættir hafa áhrif á blóðsykurinn en eingöngu bara mataræði og hreyfing. Taugakerfið er móðurtölvan okkar og stjórnar nákvæmlega öllu sem fram fer hjá okkur, algerlega óháð matnum einum þá er streita atriði sem hefur bersýnilega mikil áhrif á orkustjórn og þar með talið blóðsykur og virkni insúlíns, það er einfaldlega ekki hægt að horfa fram hjá því. Ég mun koma inn með pælingar því tengdu áður en langt um líður. 

  1. https://www.mayoclinic.org/diseases-conditions/type-2-diabetes/diagnosis-treatment/drc-20351199 
  2. https://www.visir.is/g/20212199280d/sprenging-i-fjolda-med-aunna-sykursyki-matvaelaframleidendur-beri-mikla-abyrgd 

We are using cookies on our website

Please confirm, if you accept our tracking cookies. You can also decline the tracking, so you can continue to visit our website without any data sent to third party services.