Skip to content Skip to sidebar Skip to footer

Þeim óþolinmóða vísað frá borði

Allt of oft heyri ég fólk segja með óþreyju- og uppgjafartóni að það sé ekkert að gerast hjá því, enginn árangur þótt það hafi gert allt það sem stendur í bókinni. Markmiðin láta á sér standa og „strax veikin“ fer að láta á sér kræla.

Það er alltaf, já alltaf (!), frábært þegar fólk setur sér markmið því markmiðasetning stóreykur líkurnar á að árangur náist, en þau verða að vera yfirstíganleg. Oftar en ekki hljóma markmiðin til dæmis á þennan sorglega hátt: „Í kjólinn fyrir jólin“ eða „fáðu bikiní líkama“ og þar fram eftir götunum og það er fátt sem hryggir góðan einkaþjálfara meira en einmitt þetta.

Markmið eru bæði mikilvæg og hjálpleg og það verður ekki sagt of oft, þau þurfa að vera gerð á raunhæfum og réttum forsendum. Flóknar útfærslur með stífri mætingu, mataræði og að neita sér um ótal margt eru ekkert annað en ávísun á vandræði, gúmmítékka.

Hver ert þú?

Um leið og markmiðin eru sett þarf að skoða hver er að setja þau, hvernig manneskjan er og til hvers er hægt að ætlast. Það gerum við með því að skoða líf og lífsstíl hvers og eins og vittu til, það er jafn mikilvægt og markmiðasetningin sjálf. Þegar skynsamleg markmiðasetning hefur verið gerð, þá er næst að átta sig á að til þess að ná þessum góðu markmiðum þá er þolinmæði þinn besti vinur. Þolinmæði verður þitt sterkasta „vopn“ til að ná þeim árangri sem þig langar að ná.

Þolinmæði hvað?

Við þekkjum orðið og hugtakið, en í nútíma heimi þar sem allt gerist strax er ekki furða að merking orðins þolinmæði hafi týnst. Í stuttu máli er þolinmæði við rækt líkamans, yfirveguð afstaða þín til þess sem þú stefnir að og að sættast við þá staðreynd að leiðin að markmiðunum getur tekið tíma. Stundum gerast hlutir í stökkum, en þess á milli eiga sér stað breytingar í líkamanum sem við verðum ekki endileg vör við. Við þær aðstæður getur óþolinmæðispúkinn bankað upp á í þeim erindagjörðum að tilkynna þér að þetta sé ekkert að ganga, ekkert gerist og þetta puð þjóni engum tilgangi.

Auðvelda leiðin við þessar aðstæður er að bjóða óþolinmæðinni inn, til sætis og jafnvel bjóða sætindahobbitanum líka að setjast hjá ykkur. Óþolinmæðin getur verið sannfærandi með sínar ræður og sætindagerpið tekur undir vitleysuna sem út úr óþolinmæðinni rennur.

Hafir þú boðið þeim inn til þín er tvennt í stöðunni. Bjóða þá velkomna eða vísa þeim á dyr. Þakka þeim fyrir þeirra innlegg, en þú ætlir að kjósa þolinmæðina og að það sé því miður ekki pláss fyrir fleiri við borðið. Þú bætir jafnvel við að þú vitir að óþolinmæði hafi sett stein í götu allt of margra og komið í veg fyrir að langanir besta fólks verði að veruleika.

Náir þú að gera það, þá ertu þinn besti vinur sem hefur staðið með þér, því allir vita að góðir vinir vilja allt það besta fyrir okkur. Vertu því þinn besti vinur. Með þolinmæðina þér við hlið muntu ná árangri og þolinmæðin minnir þig reglulega á að góðir hlutir, þeir gerast oftar en ekki hægt og rólega. Þið sem tvíeyki munið treysta því að markmiðin verði að veruleika og að þú heldur fókus.

Ég vildi með þessari færslu fá þig til að velta fyrir þér hvort þeirra þú vilt hafa þér við hlið, þolinmæðina eða óþolinmæðina. Við vitum þetta þó öll, en stundum þarf bara smá áminningu og hvatningu.

Ég vona hún hafi náð í mark, því þú átt það besta skilið.

Póstlisti

Please wait...

Takk fyrir skráninguna, heyrumst!

© Allur réttur áskilinn Líkami.is 2024.