Heilsa okkar og líðan er að miklu leyti háð athöfnum okkar og lífsstíl. Einfaldar athafnir geta skipt sköpum fyrir fyrir heilsu okkar.
Ég hef rekið mig á í samtölum við fólk að fólk áttar sig ekki á hvað reglubundin hreyfing hefur mikil áhrif á andlega og líkamlega líðan, ég hef heyrt mýtur um að hreyfing skipti ekki svona miklu máli. Sem er alrangt, því ótal vísindarannsóknir hafa sýnt fram á ávinning af hreyfingu. T.a.m. The New England Journal of Medicine sem er eitt af virtustu læknatímaritum heims birti grein nýlega. Greinin lýsti niðurstöðum rannsókna sem gerðar höfðu verið á 707 karlmönnum á aldursbilinu 60-80 ára. Enginn þessarra manna reykti. Skráð var hversu langt þeir gengu á hverjum degi. Eftirfylgni stóð í 12 ár. Rannsóknin var hluti af stærra verkefni sem kallast Honululu Heart Program.
Niðurstöður rannsóknarinnar var sláandi. Dánartíðni var næstum tvisvar sinnum hærri meðal karlmanna sem gengu minna en 1.6 km á dag en meðal þeirra sem gengu meira en 3.2 km á dag. Eftir 12 ár voru 43.1% karlanna í fyrrnefnda hópnum látnir en aðeins 21.5 prósent karlanna í síðarnefnda hópnum. Bæði var um að ræða fækkun dauðsfalla vegna krabbameina og vegna hjarta-og æðasjúkdóma.
Mikilvægt er að horfa til heilbrigðis í stað þess að einblína eingöngu á tölur á vigt, fituprósentu og ummál. Reglubundin hreyfing til lengri tíma leiðir oft af sér bættar matarvenjur, bæta blóðsykurstjórn, bætta líðan og gefur árangur sem fólk virkilega sættir sig við og gott betur. Hlutir taka tíma!